Fréttasafn

Image
Fréttabréf Janúar 2022
Fréttir og myndir úr starfi í janúar 2022 hjá Bifröst

Góðan daginn kæru foreldrar og forráðamenn barna í 1.-4. bekk og gleðilegt nýtt ár!

Nú þegar janúar er að klárast þá vildum við senda ykkur nokkrar línur og fullt af myndum til að sýna hvað við erum búin að vera að bralla í löngu viðverunni í desember og núna í janúar mánuði.

Í desember föndruðu krakkarnir ótrúlega mikið og fóru líka í sundferð, bíóferð, göngutúr með heitt kakó og ísferð. Síðan röltu þau um fína miðbæinn okkar og dönsuðu í kringum jólatréð :)

Við héldum litla kökuskreytingakeppni í desember og það mætti klárlega segja að allir voru sigurvegarar þar sem við fengum að gæða okkur á gómsætum muffins hjá þessum snillingum.

Það sem stóð upp úr í janúar er klárlega handbolti, Hinsegin vika í Árborg og regnbogadagurinn 19.janúar sem var í þeirri viku.

Krakkarnir skreyttu ótrúlega mikið og voru máluð í framan í regnbogalitum og síðan buðum við upp á andlitsmálingu í íslensku fánalitunum yfir handboltaleikjunum og fengu jafnvel popp með til að rífa upp stemminguna.

Út af "dálitlu" sem er að ganga í samfélaginu okkar og heiminum öllum þá höfum við því miður ekki geta leyft ykkur að koma inn og skoða hjá okkur en vonum að þessar myndir gleðji og gefi smá innsýn í starfið okkar hérna.

Þar sem þetta fyrrnefnda er búið að setja smá strik í reikninginn höfum við ekki farið af stað í klúbbastarfi eins og við hefðum óskað en það fer að sjá fyrir endan á því og allt fer á fullt fyrr en varir.