Almennar upplýsingar

Tilkynningar og samskipti


Mikilvægt er að tilkynningar berist frá forráðamönnum. Við tökum ekki við munnlegum skilaboðum frá börnunum sjálfum þegar kemur að forföllum, vinaheimsóknum eða upplýsingum um hver sækir o.þ.h. Vinaheimsóknir þurfa að vera skipulagðar fyrirfram því ekki er í boði fyrir börn að hringja úr símum frístundar með hvers kyns fyrirspurnir.

Þegar foreldrar/forráðamenn sækja börnin þurfa þeir að láta starfsmann í móttöku vita. Ef foreldri/forráðamaður þarf að ná tali af forstöðumönnum er best að hafa samband fyrir kl.12:00, þar sem forstöðumenn hafa að öllu jöfnu viðveru að skrifstofu að morgni. Alltaf er hægt að senda tölvupóst en athugið að við temjum okkur að senda staðfestingu á að póstur sé móttekinn. Við biðjum foreldra um að láta okkur vita ef breytingar verða á símanúmerum, netföngum eða öðru. Einnig er gott að fá upplýsingar á breyttum fjölskylduaðstæðum, breyttar aðstæður geta haft áhrif á líðan barna.

  • Athugið að ekki eru gefin lyf í frístund.

Okkur þykir vænt um að sjá foreldra og forráðamenn og ykkur er velkomið að kíkja á börnin ykkar í leik.

Frístundir

Ef barn á að sækja einhverjar frístundir innan þess tíma sem það er í frístund getum við sent það í rútu eða gangandi frá okkur. Það er þó algjörlega á ábyrgð forráðamanna að upplýsa okkur um tíma og staðsetningar og einnig ef forföll verða.

Eigi barn að koma aftur eftir æfingu, þarf að upplýsa okkur um það.

Eigi barn að taka frístundabílinn þarf að upplýsa um það en vert er að taka fram að frístundabíllinn er þjónusta á vegum Árborgar og undir foreldrum komið að
kenna börnum sínum að nota hann.

Falli æfing niður þurfa foreldrar/forráðamenn að tilkynna okkur það. Þær upplýsingar koma hvergi annars staðar frá.

Klæðnaður


Við í frístund förum út að leika með börnunum á hverjum degi. Það er því mikilvægt að börnin séu klædd eftir veðri svo þau geti tekið þátt í starfinu hjá okkur. Ef barn er búið að vera veikt og á að vera inni á meðan útivera er verða foreldrar að láta okkur vita með því að senda tölvupóst eða hringja fyrir kl 12:00 á daginn.

Athugið að ef börn mæta með hjól, hlaupahjól, leikföng, pening, síma eða annað þá er það á þeirra ábyrgð.

Á skemmtilegum dögum eru búningar og aðrir aukahlutir einnig á ábyrgð barnanna. Við mælum með því að aukahlutir séu skildir eftir heima þar sem þeir eiga það til að týnast eða skemmast í fjörinu sem fylgir þessum dögum.

Á frístundaheimilinu eru mörg börn og bendum við foreldrum á að merkja föt barna sinna vel. Við mælum einnig með að börnin hafi með sér auka föt í skólatöskunum. Ætlast er til að öll föt fari heim með börnum í lok hvers dags.

Fjarvera

Ef barn mætir af einhverjum sökum ekki í frístund biðjum við foreldra um að tilkynna forföll fyrir kl. 12:00, til þess að koma í veg fyrir óþarfa áhyggjur og tíma sem fer þá í að leita að barninu.