Valsvæði

Í Bifröst standa þátttakendum til boða fjölmörg leiksvæði. Börnin velja sér svæði til þess að leika sér á í gegnum valtöflukerfi. Valtaflan virkar þannig að í upphafi dags, um miðjan dag og undir lok dags safnast börnin saman fyrir framan valtöfluna þar sem starfsmaður aðstoðar þau við að velja svæði. Á töflunni eru myndir og nöfn rýmanna sem standa þeim til boða. Hvert barn á svo mynd af sér sem fer við hlið merkingar þess rýmis sem barnið valdi.

Image
Húsnæði Bifröst

Hjartarými

Aðalrými Bifrastar á neðri hæð hússins. Þar er í boði að perla, lita, spila, púsla og kubba ásamt öðru. Hjartarými er einnig það svæði sem börnin fá sér hressingu um miðjan dag.

Image
Bókaklefinn í Bifröst

Bókaklefinn

Lítið og huggulegt rými á neðri hæð Bifrastar. Þar er í boði að grípa sér í lesefni og slaka á í rólegri stemmningu.

Image
Flækjukot

Flækjukot

Handverksrými Bifrastar þar sem börnin fá að láta reyna á handverksiðju á borð við saum, hekl, prjónaskap og föndur með ýmsum efnum undir handleiðslu starfsmanns.

Image
Betri stofan

Betri stofan

Einnig staðsett á neðri hæð Bifrastar. Þar stendur til boða suma daga að spreyta sig í PlayStation leikjatölvu undir handleiðslu starfsmanns, og aðra daga er þetta rými notað undir rólega leiki.

Image
Húsnæði Bifröst

Sólin

Rými á efri hæð Bifrastar. Þar er önnur valtafla þar sem þau börn sem kjósa að fara upp velja sér rými þar. Í salnum sjálfum er í boði að lita, leika sér í Barbie, brúðuleikhús og spil.

Image
Húsnæði Bifröst

Biffabær

Dúkkurýmið okkar. Þar inni er í boði að leika sér í heimilisleikjum þar sem fjöldinn allur af dúkkum og búningum er til staðar, ásamt búðar og eldhúsleikföngum.

Image
Tunglið

Tunglið

Leikjasalurinn okkar. Tunglið er nýtt í ýmsa leiki, dans og við sérstök tilefni sem bíósalur.

Image
Leikborg

Leikborg

Nýjasta rými Bifrastar sem kynnt var til leiks haustið 2020. Þar inni er gnægð leikfanga á borð við lestar, Playmo, Lego, Kaplakubba, bíla og annað í þeim dúr.

Image
Húsnæði Bifröst

Listakot

Listarými á efri hæð Bifrastar sem börnin geta skráð sig í til þess að vinna að listaverkefnum undir handleiðslu starfsmanns.

Image
Húsnæði Bifröst

NASA

Minnsta en sjálfsagt fjörugasta rými Bifrastar. Í NASA eru púðar og pullur í öllum stærðum og gerðum. Þangað sækjast þátttakendur alla jafna til þess að fá útrás fyrir orku í ærslaleikjum.

Image
Húsnæði Bifröst

Ásgarður

Staðsettur í Útistofu 1 í Vallaskóla við Sólvelli 2 og hýsir starf 3.- og 4. bekkjar. Þar er flest allt í boði sem er einnig í boði í Bifröst, en hafa þessir bekkir þó aðgang að því sem er í Bifröst en ekki í Ú1 eftir skipulagi.