Undankeppni Söngkeppni Samfés á Suðurlandi, USSS fór fram síðastliðinn föstudag, 14. mars og var stemningin rafmögnuð þegar ungir og hæfileikaríkir keppendur stigu á svið. Fyrir hönd Zelsíuz tók Hugrún Hadda þátt með lagið Is It True, sem Jóhanna Guðrún gerði frægt í Eurovision árið 2009.
Með mögnuðum flutningi sínum heillaði Hugrún dómnefnd og áhorfendur og tryggði sér farseðil í sjálfa Söngkeppni Samfés, sem fer fram í Laugardalshöll þann 3. maí. Þar mun hún keppa á meðal hæfileikaríkra ungmenna frá öllum landshornum, en keppnin verður einnig sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Eftir keppnina var ball þar sem skemmtanahaldið hélt áfram langt fram á kvöld. Hljómsveitin Krummafótur og Séra Bjössi sáu um að halda uppi fjörinu og gerðu kvöldið enn eftirminnilegra fyrir gesti.
Það verður spennandi að fylgjast með Hugrúnu í Laugardalshöll í maí. Við óskum henni innilega til hamingju og góðs gengis á stóra sviðinu!