Kæru foreldrar og forráðamenn
Þá er komið að seinasta fréttabréfi fyrir sumarfrí.
Starfsfólk Eldheima eru öll sammála því að það hefur gengið vonum framar að sameina krakka í 3.-4.bekk Vallaskóla, Stekkjaskóla og Sunnulækjaskóla í safnfrístundina Eldheima. Það er ótrúlega magnað að sjá krakkana kynnast og leika saman úr öllum þremur skólunum og við getum ekki beðið eftir að halda áfram í haust.
Við þökkum kærlega fyrir traustið og tækifæri til að sýna fram á hvað við höfum fram að færa sem öflug viðbót við þau æðislegu frístundaheimili sem fyrir voru hér í Sveitarfélaginu Árborg. Við hlökkum til að sjá sem flesta Eldheimabúa aftur í haust ásamt fleiri krökkum sem munu bætast í okkar frábæra hóp :)
Það er aldeilis búið að bralla margt hjá okkur í Eldheimum og útivera í boði næstum daglega sem bætir hressilega á sólarvítamínstankinn okkar allra :)
- Á mánudögum er í boði fyrir krakkana að fara í hreyfirými hjá nágrönnum okkar í frístundaheimilinu Bifröst.
- Á þriðjudögum og miðvikudögum er í boði að fara í júdósalinn til að losa um smá (eða hellings) orku.
- Á miðvikudögum er líka í boði Pokémon klúbbur sem hefur aldeilis slegið í gegn hjá okkur. Krakkarnir hafa lært á alvöru Pokémon spil úr Nexus, perlað og föndrað ýmislegt tengt Pokémon, horft á Pokémon tengt efni og lært endalaust um Pokémon spilin sín.
Núna seinast fóru krakkarnir í æðislegan ratleik sem stjórnandi klúbbsins hafði eytt löngum tíma í að skipuleggja og útbúa. Vísbendingar voru hengdar upp á ýmsum stöðum og krakkarnir fóru á flakk að leysa vísbendingar, svara spurningum og safna merkjum.
- Á fimmtudögum erum við byrjuð að fikra okkur áfram með textílklúbb. Þau hafa prufað að búa til bangsa og litlar fingrabrúður sem hefur vakið mikla lukku.
- Á föstudögum nýtum við heimilisfræðistofuna eins og við getum. Meðal þess sem krakkarnir hafa búið til er croissant með skinku, croissant með súkkulaði, smákökur, ostakaka, pizza og ýmislegt fleira.
- Sjálfboðaliðinn okkar hún Martha fer nú að kveðja okkur og hennar verður sárt saknað. Hún er búin að bralla ótrúlegustu hluti með krökkunum og hefur gefið okkur endalaust af hugmyndum sem við munum nýta okkur þegar vetrarfrístund hefst aftur í haust.
- Við minnum á að þann 6.júní er lengd viðvera í Eldheimum vegna skólaslita. Skráning í lengda viðveru stendur yfir til 5.júní og er skráningin bindandi.
- Einnig viljum við minna á að óskilamunir eru allir í anddyri Eldheima. Við biðjum ykkur að fara yfir þá af því þann 1.júní verður farið með allt í Rauða Krossinn.