Fréttasafn

Image
Frístundalæsi - heilsulæsi
Í janúar lögðum við í Bjarkarbóli áherslu á samfélagslæsi. Það tókst svo vel að okkur langar einnig að taka fyrir heilsulæsi. Það er kalt í veðri og minna um útiveru en vanalega, en þá er tilvalið að hreyfa sig meira innandyra.

Í janúar lögðum við í Bjarkarbóli áherslu á samfélagslæsi. Það tókst svo vel að okkur langar einnig að taka fyrir heilsulæsi. Það er kalt í veðri og minna um útiveru en vanalega, en þá er tilvalið að hreyfa sig meira innandyra. Heilsulæsi er mikilvægt og felur í sér að börn tileinki sér þekkingu og hæfni til þess að afla sér upplýsinga og nota þær til heilsueflingar. Helstu áhersluþættir heilbrigðis eru meðal annars jákvæð og raunsönn sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld og andleg vellíðan. Hér fyrir neðan eru ýmsar upplýsingar um það starf sem við munum leggja áherslu á í febrúar og mars.

Almennt starf 

Ávextir og grænmeti

Við leggjum mikla áherslu á fjölbreytt úrval ávaxta og grænmetis. Skemmtilegt getur verið að fara óhefðbundnar leiðir í vali og smakka eitthvað nýtt. Hægt er að ræða hvar ávöxturinn eða grænmetið á uppruna sinn, hvaða vítamín eru til staðar og hvaða áhrif þau hafa á líkamann.

Úti- eða innileikur mánaðarins 

Skemmtilegt er að velja leik mánaðarins sem leggur áherslu á hreyfingu. Þá er kennt börnunum reglurnar á skipulagðan hátt og síðan leyft þeim að leika sér.

Jóga og slökun 

Hægt er að bjóða upp á ýmis konar útfærslur af jóga líkt og við höfum áður gert hér í Bjarkarbóli. Þá er gert ýmsar jóga stellingar og í lokin er slökun og hugleiðsla. Við höfum einnig útbúið Jóga bingó sem börnin geta spilað. 

Íþróttir  

Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir góða heilsu og vellíðan. Hægt er að útbúa veggspjald með mynd og lýsingu af þeim fjölbreyttu tegundum af íþróttum sem eru til hérlendis og erlendis. Auk þess er hjálplegt að hafa upplýsingar sýnilegar um íþróttafélög sveitarfélagsins. Hér fyrir neðan er tengill á heimasíðu Árborgar sem sýnir þær íþróttir sem eru í boði.  

Íþróttir í boði – Fjölmenning í Árborg (arborg.is) 

Líkaminn okkar 

Forvitnilegt getur verið fyrir börnin að læra um líkamann. Hægt er að hengja upp á vegg ýmis veggspjöld sem sýna líffæri, bein og vöðva sem má finna í líkamanum. Einnig er hægt að fræðast um líkamann með ýmsum smáforritum, ásamt því að fjöldinn allur er til af bókum sem fjalla um líkamann.  

Hreinlæti 

Myndrænar leiðbeiningar um handþvott hafðar í augnhæð barna nálægt öllum vöskum á frístundaheimilinu. Börnin eru hvött til að þvo sér um hendur áður en þau borða.

Klúbbar 

Eins og vanalega munum við bjóða upp á ýmis klúbba þar sem lögð er áhersla á hreyfingu. Hér er hlekkur þar sem má sjá klúbba sem við munum nota til hliðsjónar í okkar starfi.  

Heilsulæsi – Klúbbar – Frístundalæsi (reykjavik.is) 

Samfélagslæsið er alltaf haft til hliðsjónar í okkar starfi og munum við því koma til með að vinna með það út árið. Hins vegar finnst okkur líka gaman að breyta til og prófa okkur áfram með aðrar tegundir af frístundalæsi og ætlum við því að hafa heilsulæsisverkefnin í gangi út febrúar og mars.

- Kveðja frá starfsfólki Bjarkarbóls