Alþjóðleg verkefni

Alþjóðleg verkefni eru stór og mikilvægur hluti af starfi Pakkhússins og gefa ungmennum í Árborg tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn, kynnast nýjum menningum og öðlast reynslu sem styrkir þau bæði félagslega og persónulega.  Pakkhúsið er með Erasmus+ aðild og ESC gæðavottun.

Erasmus+ aðild (e. accreditation)

Pakkhúsið er stoltur þátttakandi í Erasmus+ og hefur á undanförnum árum byggt upp öflugt og fjölbreytt alþjóðlegt starf. Með aðild að Erasmus+ gefst ungmennum og starfsfólki einstakt tækifæri til að læra í gegnum reynslu, víkka sjóndeildarhringinn og þróa hæfni sem nýtist í skóla, starfi og daglegu lífi.

Við leggjum sérstaka áherslu á að alþjóðleg verkefni séu aðgengileg öllum, sérstaklega ungmennum sem hafa færri tækifæri til að taka þátt í viðburðum af þessu tagi.

Ungmennaskipti (e. youth exchanges)

Ungmennaskipti eru stór og spennandi hluti af starfi okkar. Þar fá ungmenni tækifæri til að ferðast til samstarfslanda, hitta jafningja frá öðrum þjóðum og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem byggja á óformlegu námi.

Markmið ungmennaskipta:

  • Að efla sjálfstraust, félagsfærni og samvinnuhæfni.
  • Að kynna ungmennum fyrir ólíkum menningarheimum.
  • Að stuðla að þátttöku ungmenna með færri tækifæri.
  • Að skapa nýtt samfélag, vináttu og gleði í gegnum reynslunám.

Skiptin eru fullfjármögnuð af Erasmus+ og því aðgengileg öllum áhugasömum ungmennum.

Dragon Legion

Pakkhúsið er í nánu samstarfi við Dragon Legion, sem er alþjóðlegt tengslanet sem notar hlutverkaspil sem aðferð til að efla sköpun, samvinnu og félagsfærni ungs fólks. Fjölmörg ungmennaskipti sem Pakkhúsið hefur tekið þátt í tengjast einmitt hlutverkaspilum og hafa notið mikilla vinsælda meðal þátttakenda. Þessi verkefni gefa ungmennum tækifæri til að þróa ímyndunarafl, læra að vinna í hóp og öðlast nýja sýn á eigin hæfileika í gegnum leik og frásagnir. 

ESC - Sjálfboðaliðastarf

Frístundaþjónusta Árborgar tekur reglulega á móti sjálfboðaliðum í gegnum European Solidarity Corps (ESC). Sjálfboðaliðar koma frá hinum ýmsu Evrópulöndum og starfa með starfsfólki okkar á frístundaheimilum, Zelsíuz, Pakkhúsinu og frístundaklúbbunum.

Hlutverk ESC sjálfboðaliða:

  • Að taka þátt í daglegu starfi með börnum og ungmennum.
  • Að leggja sitt af mörkum í viðburði, hópastarf, opnanir og skapandi verkefni.
  • Að kynna sína eigin menningu og læra um íslenska menningu í leiðinni.
  • Að styrkja teymið með fjölbreytileika, nýjum hugmyndum og fersku sjónarhorni.

Sjálfboðaliðar dvelja í 10 mánuði og taka þátt í bæði frístundastarfi og samfélagsverkefnum. Tilgangurinn er tvíþættur: að skapa tækifæri fyrir sjálfboðaliðann sjálfan og að auðga íslenskt frístundastarf með alþjóðlegum tengingum og nýrri reynslu.

ESC starfið hefur reynst gríðarlega mikilvægur hluti af alþjóðlegri þróun frístundaþjónustu Árborgar og hefur haft jákvæð áhrif bæði á ungmenni og starfsmannahópinn.

Pakkhúsið getur einnig stuðst við ungmenni sem vilja taka þátt í sjálfboðaliðastarfi ESC í öðrum Evrópulöndum. Ekki hika við að hafa samband fyrir frekari upplýsingar.

Aðgangsheimild