Árið 2016 hófst samstarfsverkefni velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz
Verkefnið byggir á snemmtækri íhlutun sem miðar að því að börn, sem þurfa félagslegan stuðning, fái aðstoð sem fyrst til að koma í veg fyrir að vandi þeirra aukist.
Verkefnið er stuðningsúrræði sem bæði hefur verið unnið á einstaklingsgrunni með tilteknu barni en einnig hefur það tekið á sig mynd sértæks hópastarfs
Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, styrkja þá og gera að virkum þátttakendum í starfi félagsmiðstöðvarinnar.
Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og liðveislu sem stuðlar að félagslegri, siðferðilegri og tilfinningalegri eflningu. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að starfsfólk nálgist unglingana á jafningjagrundvelli.
Eitt af markmiðum verkefnisins er að fá krakkana til að taka þátt og mæta reglulega í félagsmiðstöðina
Frá því að verkefnið hófst árið 2016 hafa ríflega 70% barna eða unglinga sem sótt hafa úrræðið skilað sér inn í frekara starf félagsmiðstöðvarinnar.
Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna fjölþættan ávinning og undirstrika mikilvægi félagsmiðstöðvarstarfs fyrir börn sem standa höllum fæti.
Verkefnið er dæmi um farsælt samstarfsverkefni í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu fyrir farsæld barna og er framúrskarandi vitnisburður um þann ávinning sem hlýst af samstarfi ólíkra stofnana, á borð við félagsmiðstöð annars vegar og barnavernd innan velferðarþjónustu hins vegar.
Í BA ritgerð um verkefnið (sjá hér) kemur fram að ávinningur fagfólksins sem tók þátt í verkefninu er afar mikill, sem og árangur af verkefninu fyrir virkni unglinganna sem nutu góðs af samstarfinu.
Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar er Guðmunda Bergsdóttir.
Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu segir m.a.
Þróunar- og samstarfsverkefnið ber vitni um framsækni félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz og hvers metnaðarfullt félagsmiðstöðvastarf er megnugt, í samstarfi við aðrar lykilstofnanir samfélagsins. Þróunarverkefnið er frábær fyrirmynd og innblástur fyrir aðrar stofnanir sem leita vilja nýrra leiða til að innleiða ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.