Fréttasafn

Image
Samstarfsverkefni Zelsíuz, Skjáltaskjól og Svítunnar
Á næstu vikum verður sérstakt námskeið í Frístundamiðstöðinni Bungubrekku fyrir karlkyns starfsmenn Skjálftaskjóls, Zelsíuz og Svíturnar.

Félagsmiðstöðvarnar Skjálftaskjól, Zelsíuz og Svítan hafa á undanförnum mánuðum farið í markvissa vinnu að auka samstarf sín á milli með reglulegum samráðsfundum. 

Eitt af fyrstu samstarfsverkefnum þessara þriggja félagsmiðstöðva var að auka aðgengi að fræðslu fyrir starfsfólk. Á næstu vikum verður sérstakt námskeið í Frístundamiðstöðinni Bungubrekku fyrir karlkyns starfsmenn Skjálftaskjóls, Zelsíuz og Svíturnar. Við bindum miklar vonir við það að aukið samstarf á milli félagsmiðstöðva á Suðurlandi auki fagþekkingu og fagþróun í félagsmiðstöðvastarfi á landshlutanum. 

Um námskeiðið:

Stígamót, miðstöð fyrir brotaþola kynferðisofbeldis, bjóða upp á námskeið fyrir karla sem vilja taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi, nánar tiltekið ofbeldi karla gegn konum, kynsegin einstaklingum og öðrum jaðarsettum hópum. Námskeiðið er hugsað fyrir karla sem vilja taka umræðuna um kynbundið ofbeldi í sínu umhverfi, t.d. í vinahópum, fjölskyldu og vinnustöðum. Um er að ræða ítarlegt námskeið þar sem lögð er áhersla á að skoða fjölbreytt viðfangsefni sem varða þennan málaflokk með sérstaka áherslu á kynferðisbrot og ungmenni.  

Stígamót hefur frá upphafi lagt áherslu á að öll umræða um kynferðisofbeldi sé brotaþolavæn, þ.e. að tekið sé mið af reynslu og þörfum þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þannig að baráttan gegn kynferðisofbeldi, gegn nauðgunarmenningu felur í sér að skapa nýja menningu, þar sem brotaþolar upplifa stuðning og að eiga rétt á að leita sér hjálpar og réttlætis. Menning sem einnig kallar og styður gerendur ofbeldis til að taka ábyrgð á því ofbeldi sem þeir hafa beitt.  

Á námskeiðinu verða eftirfarandi þemu tekin fyrir: birtingarmyndir kynferðisofbeldis, afleiðingar kynferðisofbeldis, kynjakerfið, karlmennskur, klámmenning, nauðgunarmenning, brotaþolavæn skóla- og ungmennastarfsmenning, umræðan um gerendur og Sjúkást átakið. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu námskeiðsins: https://bandamenn.is/