Bollu- og öskudagur
Við fögnuðum auðvitað bolludeginum þar sem við fengum okkur bollur og bjuggum til bolluvendi í Listasmiðjunni. Síðan var það öskudagurinn sem heppnaðist afar vel, en við byrjuðum daginn á að leyfa börnunum að slá köttinn úr tunnunni, ásamt því að við buðum upp á andlitsmálningu. Síðan fengu þau að fara í “búðir” og syngja fyrir nammi. Við vorum með Bónus, Árvirkjann, Flying Tiger og Slippfélagið þar sem starfsmenn okkar stóðu vaktina með prýði. Að lokum var Just Dance fyrir þá sem vildu. Okkur þótti ótrúlega gaman að fagna deginum með börnunum og vonum að þau hafi öll skemmt sér vel.
Hinsegin vikan
Við héldum upp á hinsegin vikuna í þriðja sinn hér í Árborg þann 26. febrúar til 1. mars. Markmið hinsegin vikunnar er að auka fræðslu, skapa umræður og vera sýnileg. Við tókum auðvitað þátt í fögnuðinum með ýmis verkefnum og föndri í Listasmiðjunni. Þann 1. mars var regnboga þema hjá okkur, þar sem börnin og starfsfólkið voru klædd í öllum regnbogans litum. Við viljum að öll upplifi sig velkomin hér í Bjarkarbóli og fögnum fjölbreytileikanum alla daga ársins.
Glitraðu með einstökum börnum
Þann 29. febrúar var dagur sjaldgæfra sjúkdóma og heilkenna. Þá voru allir hvattir til þess að klæðast einhverju glitrandi eins og glimmeri og pallíettum til þess að sýna stuðning og samstöðu við þá sem lifa með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni. Með þátttöku í þessari vitundavakningu er verið að vekja athygli á að hátt í 700 börn og ungmenni glíma við erfiðar og fátíðar greiningar sem afar fáir þekkja eða skilja.
Smiðjur
Við buðum upp á ýmsar smiðjur með áherslu á hreyfingu í febrúar.
Til dæmis vorum við með jóga og hugleiðslu þar sem farið var yfir ýmsar jóga stellingar og teygjur. Við endum smiðjuna á hugleiðslu fyrir börn frá Hugarfrelsi, þar sem börnin mega liggja eða sitja og hlusta. Við mælum eindregið með að foreldrar/forráðamenn kíkji á “Hugarfrelsi” á Spotify, þar sem má finna slökun, hugleiðslu og öndunaræfingar fyrir börn og fullorðna.
Einnig vorum við með leikjasmiðu þar sem við fórum í leiki eins og “hvað er klukkan gamli refur?”, stoppdans, “floor is lava” og hvísluleik.
Við bjóðum börnunum upp á að fara í hreyfisalinn okkar að minnsta kosti einu sinni í viku og á föstudögum bjóðum við upp alltaf upp á Just Dance, sem er frábær hreyfing og hristir hópinn vel saman.
Að lokum viljum við benda á að við erum byrjuð að fara oftar út, þar sem veður fer hægt og rólega hlýnandi. Við temjum okkur það að hafa útiveru sem val, en einstaka sinnum sendum við öll börnin út og þá er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn sjái til þess að börnin séu klædd eftir veðri og með nóg af aukafötum, þar sem getur komið fyrir að þau blotni í gegn.
Við ætlum að halda áfram að leggja áherslu á hreyfingu í mars og bjóða upp á fleiri skemmtilegar smiðjur fyrir börnin.
-Kær kveðja frá starfsfólki Bjarkarbóls