Gleðilegan nóvember kæru foreldrar/forráðamenn barna í safnfrístundinni Eldheimum.
Hérna koma fréttir fyrir október mánuð.
- Við erum byrjuð að fara í Sandvíkursalinn/júdósalinn á þriðjudögum og miðvikudögum og heimilisfræðistofuna að baka á föstudögum og krakkarnir eru að elska það.
- Opnunarhátíð á samvinnuverkefninu „Barnabókahetjur heimsins“ var núna 19.október, en október er einmitt Menningarmánuður í Árborg.
Barnabókmenntir þeirra þjóða sem eiga fulltrúa í sveitarfélaginu Árborg verða kannaðar með það að markmiði að finna hverjar eru helstu hetjur og andhetjur í þeirra barnabókum og kynna þær til leiks í máli og myndum á sýningu sem verður sett upp á nokkrum stöðum á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri. Sýningin verður í tengslum við hátíðina Vor í Árborg 2024 en sú hátíð er árviss, hefst Sumardaginn fyrsta og stendur í fjóra daga.
Verkefnið verður unnið af starfsfólki bókasafns Árborgar í samvinnu við fjölmenningarteymi sveitarfélagsins, með starfsfólki og börnum í frístundaheimilinu Eldheimum.
Þetta er verkefni sem er unnið af börnum og með börnum fyrir samfélagið og til þess fallið að varpa jákvæðu ljósi á breytt samfélag og kosti fjölmenningar. Verkefnið verður líka til þess að auka fjölbreytni á framboði barnabóka á bókasafninu og auðgar samfélagið einnig á þann hátt.
Við fórum með hóp af börnum á opnunarhátíðina og hlustuðum á tvær systur frá Venezuela syngja fyrir okkur á spænsku, íslensku og ensku og drógum fyrstu löndin sem við ætlum að vinna með og skoða.
Stefnt er að því að hittast mánaðarlega á bókasafninu og ræða um hvernig gangi og draga ný lönd til að skoða og uppgötva.
- Við erum núna tvisvar búin að leyfa börnunum að kjósa um hvað þau fá gómsætt og öðruvísi að borða í kaffitíma á föstudögum og báru ostaslaufur og pizzasnúðar sigur úr býtum.
- Dagana 30.-31.október var lengd viðvera í frístund vegna foreldraviðtala og starfsdaga í skólum Árborgar.
Í lengdri viðveru buðum við upp á grjónagraut og lifrapylsu annan daginn og hinn daginn skrímslapasta og kjötbollur.
Krakkarnir fóru í íþróttahúsið Vallaskóla og líka júdósalinn en það sem virtist slá í gegn var „Minute to win it“ og hópeflis leikir sem drógu aldeilis fram keppnisskapið í krökkunum.
- Við vonumst til að geta tekið við restinni af börnum innan skammst ef allt gengur upp og þá byrjum við að setja upp markvissara vikuskipulag í kringum þá hluti sem börnin velja og hafa áhuga á að gera í frístundinni sinni.
- Að lokum viljum við benda á að símanúmer forstöðumanns er breytt. Það var 480-5860 og er núna 480-5865.
Ef þið hafið einhverjar spurningar er ykkur velkomið að hafa samband í síma 480-5847/4805865
eða senda tölvupóst á eldheimar@arborg.is
Við látum fylgja með nokkrar myndir sem þið getið skoðað til að sjá hvað við erum að bralla í frístund
Helgarkveðjur
Starfsfólk Eldheima