Fréttasafn

Image
Selurinn hefst eftir sumarfrí

Selurinn er loksins kominn af stað eftir sumarfrí. Fyrsta opnun var dagskrárgerð og kaffihúsastemning. Mikil tilhlökkun er fyrir starfinu í haust þar sem verður fjölbreytt dagskrá í boði ásamt spennandi viðburðum á borð við jeppaferð, hrekkjavöku, bingó, jólahátíð o.fl. Meðlimum klúbbsins fjölgar ört og starfið stækkar og blómstrar í takt við ört stækkandi samfélag hér í Sveitarfélaginu Árborg. Með því aukast tækifæri til þess að mæta meðlimum þar sem þeir eru staddir, efla félagsfærni og virkni í eigin frístundum.

Eitthvað ber á nýju starfsfólki í starfsmannahópnum sem eru mjög spennt fyrir að kynnast og taka þátt í starfinu með meðlimum Selsins. Mikið er lagt uppúr því að virkja meðlimi til að taka þátt í dagskrárgerð og hafa sem mest áhrif á starfið. Leitast er við að gefa meðlimum ábyrgð á allskonar dagskrá eða ákveðnum atriðum sem skilar sér í mætingu og virkni meðlima. Starfsfólk hefur einnig tækifæri til að hafa áhrif á dagskránna og vinna með sín eigin áhugamál og kynna þau fyrir meðlimum. Þannig myndast öruggt umhverfi þar sem meðlimir og starfsfólk getur komið saman á jafningjagrundvelli og átt skemmtilega stund saman.

Ávallt heitt á könnunni. Húmor og jákvæðni í fyrirrúmi.

Kveðja,
Alexander Freyr
Forstöðumaður Selsins