Fréttasafn

Image
Fréttabréf mars 2024
Í mars var mikið um útiveru hjá okkur ásamt skemmtilegu páskaföndri.

Í mars var mikið um útiveru hjá okkur. Þegar veðrið var gott fóru börnin út og krítuðu listaverk á skólalóðina.

Fótboltinn var afar vinsæll hjá börnunum, enda erum við svo heppin að vera með stóran fótboltavöll sem nýtist vel. Einnig fórum við í skemmtilega leiki eins og pógó, stórfiskaleik og “hvað er klukkan gamli úlfur?”.

Þegar veðrið var að stríða okkur fengu börnin að leika sér í hreyfisalnum. Við vorum líka dugleg að lesa bækur og hlusta á sögur í kósíhorninu okkar.

Fimmtudagurinn 21. mars var alþjóðlegur dagur Downs heilkennis og þá klæddumst við mislituðum sokkum og fögnuðum fjölbreytileikanum.

Við föndruðum margt skemmtilegt í Listasmiðjunni í kringum páskana, eins og páskaunga og páskaegg. Við vorum með lengda viðveru í dymbilviku þar sem dagskráin var afar skemmtileg. Það var meðal annars boðið upp á ýmis konar páskaföndur, páskaperl, vinabandagerð, útiveru og bíó. Einnig vorum við með páskaeggjaleit þar sem börnin áttu að finna og telja lítil páskaegg sem búið var að fela um allt hús.  

Að lokum viljum við minna foreldra/forráðamenn á að fara yfir óskilamuni sem eru staðsettir í fatahengjum 1. og 2. bekks. 

Við óskum ykkur gleðilegra páska og hlökkum til að taka á móti börnunum eftir páskafrí 😊 

-Kær kveðja frá starfsfólki Bjarkarbóls.