Nóvember var mjög skemmtilegur hjá okkur og við erum byrjuð að undirbúa jólin á fullu. Börnin eru byrjuð að perla og lita alls konar jólalegt og við keyrum svo jólastemninguna á fullt í desember.
Föstudagskaffi
Þann 22. nóvember kusu börnin um föstudagskaffi og varð niðurstaðan að hafa kringlur og kakó í föstudagskaffinu 29. Nóvember. Það sló heldur betur í gegn og var gaman að sjá hvað börnin voru spennt fyrir kaffinu sem þau völdu. Næsta föstudagskaffi verður hins vegar ekki á föstudegi, en við höfum það fimmtudaginn 19. desember þar sem það er seinasti hefðbundni dagurinn okkar fyrir jól. Börnin munu kjósa um það líka.
Opið hús
Þann 19. desember næstkomandi verður opið hús hjá okkur. Við hvetjum foreldra og aðra ættingja til að kíkja á okkur á milli kl 14:30-16:00. Þá fáið þið að kynnast starfseminni okkar betur og getið séð hvað börnin hafa verið að föndra hjá okkur.
Jólagluggi
Jólagluggaleikur Sveitarfélags Árborgar gengur út á að frá 1. desember til 24. desember opnar einn jólagluggi á dag í stofnun eða fyrirtæki í sveitarfélaginu og í hverjum glugga er geymdur einn bókstafur sem setja á inn í þátttökueyðublað.
Stafirnir mynda setningu sem í finnast svör við þeim spurningum sem þarf að svara. Eyðublaðinu er síðan skilað í bókasafn Árborgar Selfossi eða í Sundhöllina á Selfossi. Að lokum eru dregnir út þrír heppnir vinningshafar sem svarað hafa öllum spurningum rétt.
Börnin hér í Bjarkarbóli taka þátt í að undirbúa gluggann og við verðum með jólaglugga þann 18. desember. Við vonum að sem flestir foreldrar taki þátt í jólagluggaleiknum með börnunum, enda er þetta frábær samvera fyrir fjölskylduna.
Lengd viðvera í kringum jól og áramót
Við bjóðum upp á lengda viðveru þann 20. desember, 23. desember og 2. janúar. Það er lokað milli jóla og nýars og lokað 3. janúar vegna starfsdags.
Athugið að þessa daga verður að skrá börnin sama hvort sem á að nýta viðveru fyrir hádegi eða eingöngu á skráðum vistunartíma eftir hádegi. Skráning lokar 16. desember kl 16:00 og því biðjum við ykkur að hafa samband tímalega ef þið lendið í vandræðum með skráningu.
M.t.t. skipulags er ekki hægt að skrá börn eftir að skráningarfrestur er liðinn og ekki hægt að taka á móti börnum sem ekki eru skráð.
Símanúmer og tölvupóstur
Minnum aftur á að tölvupósturinn okkar er bjarkarbol@arborg.is og við ítrekum mikilvægi þess að senda okkur póst fyrir kl 12 á daginn. Við temjum okkur að svara öllum tölvupóstum.
Eftir að starfið okkar hefst kl 13:10 er best að hringja í okkur til að koma skilaboðum til okkar.
- Bekkur – 833-4565
- Bekkur – 848-8620
-Kær kveðja frá starfsfólki Bjarkarbóls